Til foreldra nemenda í 1. – 10. bekk Rimaskóla sem eru í mataráskrift

Eins og ykkur er kunnugt um þá ákvað borgarráð að hækka fæðisgjald í grunnskólum Reykjavíkurborgar um 100 kr á dag frá og með 1. október sl. Viðbótarfjármunir eiga að renna óskiptir í framlög til matvælakaupa. Grunnskólarnir hafa nú að meðaltali 336 kr á dag til matarkaupa. Í Rimaskóla hefur verið komið upp nokkurs konar salatbar í hverju hádegi þar sem nemendur geta fengið sér grænmeti eða ávexti eftir þörfum og lyst.

Þar sem skólinn starfar skv. verkefninu heilsueflandi grunnskóli verður nemendum boðið upp á grófara brauð, minna af tilbúnum réttum eins og bjúgum og pylsum, börnunum verður einnig boðið upp á lax, lasagne, kjúklinga, hamborgara og annað gott kjötmeti. Hrísgrjónagrautur, slátur, plokkfiskur, spagetti og nautahakk, þessir vinsælu réttir verða að sjálfsögðu áfram á matseðlinum ásamt ferskum fiski á mánudögum.

Vonumst við í Rimaskóla til þess að skólinn bjóði í framtíðinni upp á ennþá hollari mat og að áskrift í mötuneyti minnki ekki vegna hækkandi verðs heldur aukist í kjölfar meiri fjölbreytni.

Aldrei er hægt að gera öllum til hæfis fyrir ekki hærri upphæð en við biðjum ykkur foreldra um að fylgjast með því að börnin ykkar í áskrift borði daglega matinn sinn.

Helgi Árnason Rimaskóli

SKILDU EFTIR SKILABOÐ

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.