Skóla- og frístundasvið tók til starfa 12. september 2011. Því er ætlað að veita börnum og fjölskyldum í borginni heildstæða þjónustu og stuðla að samfellu í öllu starfi sem hefur velferð barna að leiðarljósi. Ragnar Þorsteinsson stýrir skóla- og frístundasviði.
Leiðarljós skóla- og frístundasviðs er að börnum og ungmennum í borginni líði vel, fari stöðugt fram og að þau öðlist uppeldi og menntun fyrir líf og starf. Hlutverk sviðsins er að veita börnum og ungmennum bestu mögulegu tækifæri til leiks, menntunar og frístundastarfs í samvinnu við fjölskyldur og nærsamfélagið og að vera framsækið forystuafl í skóla- og frístundastarfi. Á skóla- og frístundasviði eru börn og ungmenni í brennidepli og öll þjónusta tekur mið af því.
Á skóla- og frístundasviði er leikur, nám og frístund jafn mikilvæg og sérsvið og sérkenni hverrar hugmyndafræði fá að blómstra með áherslu á þverfaglegt samstarf. Þannig skapast tækifæri til fjölbreyttari menntunar- og frístundastarfs fyrir börn og ungmenni.
Undir skóla- og frístundasvið heyra:
- 64 leikskólar með um 6.000 börn. Auk þess eru um 1.000 börn í 18 sjálfstætt starfandi leikskólum. 800 börn dvelja að jafnaði hjá um 200 dagforeldrum;
- 36 grunnskólar með um 13.400 nemendur, auk 6 sjálfstætt starfandi grunnskóla með um 660 nemendur;
- 37 frístundaheimili og 5 frístundaklúbbar fyrir um 3.800 börn;
- 21 félagsmiðstöð með um 175.000 heimsóknir á ári;
- 4 skólahljómsveitir þar sem um 440 nemendur læra á hljóðfæri;
- Námsflokkar Reykjavíkur þar sem um 250 manns stunda nám á ári hverju og um 1.500 manns fá náms- og starfsráðgjöf;
- Um 2.500 nemendur, sem skóla- og frístundasvið greiðir með, í 18 tónlistarskólum í borginni;
- 4.300 starfsmenn hjá sviðinu í um 3.700 stöðugildum. Þar af eru 1.745 stöðugildi leik- og grunnskólakennarar.
- 83% starfsmanna eru konur.
Skóla- og frístundasvið veitir þjónustu í fjölbreytilegu samfélagi
- Börnin í borginni eru af minnst 97 þjóðernum og tala yfir 70 tungumál.
- Um 400 grunnskólanemar fá kennslu í íslensku sem öðru tungumáli.
- Um 8% leikskólabarna og 25% nemenda í grunnskólum fá stuðning eða sérkennslu. Um 7% barna í frístundastarfi fá sérstakan stuðning. Að auki eru starfræktir fjórir frístundaklúbbar fyrir börn með fatlanir.
Börn og ungmenni í Reykjavík ná góðum árangri
- Nemendur í 10. bekk voru yfir landsmeðaltali í íslensku, stærðfræði og ensku á samræmdum könnunarprófum árið 2011.
- Niðurstöður Pisa rannsóknar OECD 2012 sýna að reykvískir nemendur og nemendur á höfuðborgarsvæðinu stóðu sig best miðað við aðra landshluta í stærðfræði og lesskilningi. Í náttúrufræði var ekki marktæk breyting á niðurstöðu reykvískra nemenda milli 2006 og 2012 en meðaltalið í náttúrufræðinni var þó undir meðaltali OECD.
- 90% foreldra telja markvisst unnið með félagsfærni í leikskólum og 97% þeirra telja barn sitt ánægt í leikskólanum.
- Um 75% foreldra telja frístundaheimili og félagsmiðstöðvar hafa góð áhrif á félagsfærni barna sinna og að viðfangsefnin séu áhugaverð. 90% foreldra telja að börnunum líði vel í frístundastarfinu.
- Yfir 90% barna á aldrinum 13 – 15 ára taka þátt í einhvers konar frístundastarfi.
- Um 80% nemenda í 6. – 10. bekk segjast alltaf eða oftast leggja sig alla fram til að ná tökum á þeirri þekkingu og hæfni sem verið er að kenna þeim.
- Yfir 90% foreldra telja að börnum sínum líði vel í grunnskólanum.