Rimaskólamolar

Hérna eru nokkur orð frá Þórönnu skólastjóra.,

Heil og sæl

Það breyttist aldeilis veðrið í vikunni, kólnaði og svo snjóaði í gær. Það lyftist upp brúnin hjá einhverjum nemendum sem skelltu sér í snjókast í þessari föl sem féll 🙂

Vikan byrjaði kröftuglega með gulri og svo appelsínugulri viðvörun. Við vorum á vaktinni en staða Rimaskóla innan hverfis er nokkuð góð og við erum ekki alltaf að biðja foreldra að sækja ef við teljum ekki þörf á. Eitthvað af foreldrum á miðstigi fannst við ekkert voðalega notaleg að fresta ekki sundi eða allavega bjóða upp á rútu á þriðjudeginum. Við getum ekki pantað rútu og einnig mátum við það að veðrið var ekki þannig að ófært væri að ganga í sundið. Börnin okkar eru oft duglegri en við höldum en það sem kannski aftrar þeim helst er slæmur klæðnaður. Þau voru nokkur sem ekki mættu í almennilegum yfirhöfnum eða í strigaskóm í helli rigningu og þá verður maður sannarlega blautur.

Nú getur veðrið breyst snögglega og myrkrið er að færast yfir. Við þurfum því að gæta þess að klæða okkur vel og ekki síst að hafa endurskinsmerki. Nemendur í 1. – 4. bekk fengu sannarlega góða gjöf í dag þegar Baldvin formaður Foreldrafélagsins færði krökkunum glæsileg endurskinsmerki til að setja á úlpurnar sínar og auðvitað er merkið merkt besta skóla bæjarins!! Nemendur voru mjög glaðir og þakklátir fyrir þessa flottu gjöf, læt fylgja með eina mynd af hópi úr fjórða bekk þegar þau tóku við gjöfinni.

Þriðjudaginn 28. september er foreldraviðtalsdagur og þá er ekki skóli hjá nemendum. Kennarar eiga að hafa látið foreldra vita hvernig fyrirkomulagið verður en ef það er ekki þá hvet ég ykkur til að hafa samband við umsjónarkennara.

 

 

Með helgarkveðju
Þóranna Rósa Ólafsdóttir
Skólastjóri Rimaskóla

SKILDU EFTIR SKILABOÐ

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.