Rannsókn meðal nemenda í 5. – 10. bekk á Íslandi.

Ágætu foreldrar / forráðamenn,

Dagana 3. til 5. febrúar næstkomandi er fyrirhugað að gera könnun á högum og líðan ungmenna í  5. til 10. bekk grunnskóla á Íslandi. Könnun þessi er unnin skv. samningi við    mennta- og menningarmálaráðuneytið og er hluti rannsóknaráætlunar til ársins 2016.

Nemendur í 5. – 7. bekk svara fjölbreyttum spurningum sem hafa það markmið að kanna sérstaklega hagi þeirra og líðan. Könnunin tekur um 50 – 60 mínútur.

Nemendur í 8. – 10. bekk svara aftur á móti nokkrum spurningum um vímuefnaneyslu nemenda.  Sú könnun tekur aðeins um 10 mínútur.

Ungt fólk rannsóknaröðin hefur verið unnin á Íslandi allt frá árinu 1992 en samfella í rannsóknum á högum og líðan ungs fólks er þeim sem að málaflokknum starfa afar mikilvæg. Upplýsingar úr rannsóknunum hafa allt frá upphafi verið notaðar við stefnumótun og aðgerðir í málefnum ungs fólks og eru grunnur að vinnu fjölmargra stofnana samfélagsins, sem vinna að því að bæta líf og hagi ungs fólks á Íslandi.

Megináherslur rannsóknanna Ungt fólk eru þær sömu í ár og áður hefur verið og lúta að því að kanna hagi og líðan ungmennanna og félagslega þætti. Hér má m.a. nefna tengsl við foreldra og vini, íþróttir og tómstundir, félagslíf, líðan, einelti, streitu, mataræði, nám, brottfallsáhættu, félagslega stöðu, svefnvenjur, lestur, tölvunotkun, vímuefnaneyslu, framtíðaráform og annað mikilvægt.

Könnunin er nafnlaus og því ekki hægt að rekja neinar upplýsingar til einstaklinga og eru nemendur sérstaklega beðnir að rita hvorki nafn sitt né kennitölu á spurningalistann. Þegar nemendur hafa lokið við að fylla út spurningalistana eru þeir beðnir að setja þá í trúnaðarumslög og loka þeim vandlega áður en þeim er safnað saman. Listarnir eru svo sendir greiningaraðilum sem tölvuskrá upplýsingarnar án þess að geta með nokkru móti vitað hverjum þær tilheyra. Öll gögn rannsóknarinnar eru ópersónurekjanleg. Að skráningu lokinni er spurningalistunum eytt.

Með þessu bréfi biðjum við ykkur, kæru foreldrar/forráðamenn, að samþykkja að barn ykkar taki þátt í könnuninni. Berist okkur ekki athugasemd við beiðni þessari gerum við ráð fyrir að slíkt samþykki sé til staðar. Verði þátttaka góð koma upplýsingarnar til með að skila mikilsverðum niðurstöðum, bæði hagnýtum og fræðilegum líkt og fyrri kannanir af þessu tagi hafa gert.

Ef nánari upplýsinga er óskað þá vinsamlega hafið samband við Jón Sigfússon hjá Rannsóknum & greiningu með tölvupósti rannsoknir@rannsoknir.is eða í síma 599 6431.

Með vinsemd og virðingu

Starfsfólk Rannsókna & greiningar

SKILDU EFTIR SKILABOÐ

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.