,,Kæru foreldrar, allt þetta má ég EKKI segja ykkur…”

,,Kæru foreldrar, allt þetta má ég EKKI segja ykkur…”

Kæru foreldrar. Ég skil ykkur: Þið hafið áhyggjur. Á hverjum degi kemur barnið ykkar heim með einhverjar fréttir af ÞESSU barni. Já, ÞESSU sem er alltaf að meiða, sparka, kýla, klóra…jafnvel bíta einhvern. NEMANDINN sem ég þarf að leiða og halda í á göngunum. ÞESSI sem getur ekki setið kyrr í stólnum sínum. NEMANDINN sem stalst einu sinni út fyrir skólalóðina. Fær reiðisköstin. Hellir á gólfið viljandi. NEMANDINN sem blótar og sagði meira að segja ,,fuck”í leikfimi um daginn.

Þið hafið auðvitað af því áhyggjur að ÞESSI nemandi, sé að skemma fyrir skólagöngu ykkar barna. Lærdómi og leik. Þið hafið auðvitað áhyggjur af því að ÞESSI nemandi, geti meitt ykkar barn. Eða fari að leggja börnin ykkar  í einelti.

Og kannski hafið þið meira að segja áhyggjur af því að vegna vandræðanna hjá ÞESSUM nemanda, þá sé ég svo upptekin að það bitnar á þeim tíma og athygli sem börnin ykkar eiga rétt á að fá í tíma.

Já, þetta árið er ERFIÐI NEMANDINN, nefnilega ekki ykkar barn. Barnið ykkar, er því ekki ÞETTA barn sem allir eru að tala um. Þið vitið það svo sem að barnið ykkar er ekkert fullkomið, en það fylgir almennt eftir reglunum og engar stórar áhyggjur að hafa.

 

Ég skil ykkur alveg. Auðvitað hef ég líka af þessu áhyggjur.

Málið er að ég er alltaf með áhyggjur. Af þeim ÖLLUM. Hvort þau séu að læra að halda á blýantinum rétt þegar þau eru að skrifa. Hvernig þeim gengur að læra að lesa, eða yfirstíga feimnina. Ég hef líka áhyggjur af nemandanum sem ég sé að vantar í rauninni meira nesti í skólann. Eða nemandanum sem er í rauninni ekki í nógu hlýrri úlpu. Eða þessum sem skrifar enn B-ið öfugt.

Og svo framvegis….

En við tölum auðvitað ekkert um það. Við tölum bara um ERFIÐA nemandann. Ekki það að ég sé ekki til í að ræða það barn líka. Ég bara má það ekki.

Og nú segið þið:

Nei skiljanlega. Auðvitað máttu ekki vera að segja okkur frá svona persónulegum upplýsingum um Stelpa í greinfjölskylduhagi hvers og eins. Það eina sem þið viljið fá að vita, er hvað ég og skólinn erum að gera í þessu máli með ÞENNAN nemanda. ERFIÐA barnið í bekknum.

Ég væri svo sem til í að ræða þetta nánar. Ég bara má það ekki.

Ég má ekki segja ykkur frá barninu sem er í talþjálfun og tungumálakennslu.

Ég má ekki segja ykkur frá fundinum sem er hér vikulega með foreldrum barnsins og að á þeim fundi, fari að minnsta kosti annað foreldrið oftast að gráta.

Ég má ekki segja ykkur frá nemandanum sem læðir stundum miða í lófann á mér, vegna þess að það er merkið okkar um að hann þarf að fá að sitja í ró til að halda sér frá vandræðum.

Ég get ekki sagt ykkur frá nemandanum sem hefur fengið að sitja í fanginu mínu, bara vegna þess að honum finnst svo gott að geta lagt höfuð á bringu og heyrt hjartslátt einhvers.

Ég get heldur ekki sagt frá barninu, sem náði að fækka ,,uppákomum” frá 5 sinnum á dag niður í 5 sinnum í viku. Bara vegna þess að lyf barnsins höfðu verið stillt á ný.

Ég get ekki sagt ykkur frá barninu, sem ég er búin að semja um að fái stundum að sitja hjá konunum á skrifstofunni, bara til að forða sér frá vandræðum sem koma oft upp þegar það er innan um önnur börn.

Ég má heldur ekki segja ykkur frá kennarafundinum, þar sem ég endaði með að standa upp með tárin í augunum og biðja samstarfsfélaga mína um að hlúa sérstaklega að erfiða nemandanum, sem var nýbúinn að lemja annað barn og það fyrir framan kennara.

Málið er, að það er svo margt sem ég hreinlega má ekki segja ykkur. Ekki einu sinni jákvæðu hlutina.

Ég get til dæmis ekki sagt ykkur frá að barnið sem ykkur finnst svo ERFITT, sér um að vökva blómin í stofunni okkar. Og fór að gráta um daginn, vegna þess að eitt blómið dó.

Ég get ekki sagt ykkur að barnið sem ykkur finnst svo ERFITT, kveður litlu systur sína með kossi á hverjum morgni og hvíslar að henni ,,þú ert ljósið mitt,” um leið og mamma þeirra strunsar í burtu með það yngra í kerru.

Ég get ekki sagt ykkur frá því að barnið sem ykkur finnst svo ERFITT, veit meira um þrumur og eldingar en margir hámenntaðir fullorðnir.

Ég get ekki sagt ykkur frá barninu sem ykkur finnst svo ERFITT, en biður oft um að fá að ydda blýantana í frímínútunum á meðan hin börnin leika sér.

Ég get ekki sagt ykkur frá barninu sem ykkur finnst svo ERFITT, en strýkur um hár vinkonu sinnar, þegar það veit að vinkonunni líður illa eða er þreytt.

Ég get ekki sagt ykkur frá því að barninu sem ykkur finnst svo ERFITT, en er það fyrsta til að hlaupa til og reyna að finna einhverja bók eða sögu, öðrum til huggunar ef einhver fer að gráta.

Það er vegna þess, að mér er ekki leyfilegt að ræða önnur börn við ykkur, en ykkar eigin. Þess vegna langar mig bara að segja við ykkur:

Einn veturinn, gæti sú staða komið upp, að ERFIÐA barnið, er barnið ykkar.

Ef það gerist, þá þurfið þið ekki að hafa áhyggjur af því, að ég fari að segja öðrum foreldrum frá þeim aðstæðum sem ykkar fjölskylda er kannski að glíma við þá.

Ef þessi staða kemur upp, mun ég reyna að hitta ykkur reglulega og veita ykkur stuðning og skilning.

Ég skal vera með tissjú við höndina, ef þið hafið þörf fyrir það að gráta.

Ég mun berjast fyrir réttindum barnsins ykkar, hvort sem það er fyrir sérkennslu eða einhvern annan nauðsynlegan stuðning.

Ég mun reyna að hlúa að barninu ykkar af umhyggju og alúð.

Og reyna að vera rödd barnsins ykkar í skólanum.

Allt þetta mun ég gera, bara í þeirri von að fara að sjá vísbendingar um að barninu ykkar fari smátt og smátt að líða betur og blómstra.

Þess vegna mun ég reyna að minna barnið ykkar og ykkur sjálf, á öll litlu góðu atriðin.

Einn daginn munu síðan koma aðrir foreldrar til mín. Til að ræða við mig um þá stöðu sem er komin upp með þeirra barn.

Og þá mun ég gera nákvæmlega það sama: allt sem ég var að telja upp við ykkur.

Því hvert barn skiptir máli.

Kennari.

Byggt á pistli sem Amy Murrey birti á bloggsíðunni sinni. Hún er skólastjóri grunnskóla á yngra skólastigi í Kanada. Okkur finnst hann góð ábending um hversu mikilvægt það er að ekkert okkar dæmi annarra manna börn. Börn, sem kannski eru að glíma við erfiðleika sem við þekkjum ekki, eða aðstæður sem við gerum okkur ekki í hugarlund. Myndskreytingar eru ótengdar efni greinar.

 

SKILDU EFTIR SKILABOÐ

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.