Fréttatilkynning frá SAFT
Íslensk ungmenni hafa áhrif á netið
Í tilefni 16 ára afmælis Alþjóðalega netöryggisdagsins þann 5. febrúar síðastliðinn stóð Evrópuráð stafrænnar velferðar (European council for digital good) fyrir því að ungmenni um alla Evrópu segðu sína skoðun á hver væru mikilvægustu markmiðin til að gera internetið að betri stað fyrir ungmenni en ungmennin fengu það verkefni að velja 16 markmið sem unnið yrði að til að gera netið að betri stað fyrir ungt fólk.
Ungmennaráð SAFT tekur þátt í verkefninu fyrir hönd Íslands. Kosning fór fram í janúar um hvaða markmið ættu að vera valin en um 2500 ungmenni frá 35 löndum kusu og voru niðurstöðunar kynntar á fundi í Mílanó á Ítalíu. Katrín Lilja Árnadóttir og Hafrún Arna Jóhannsdóttir voru fulltrúar ungmennaráðs SAFT á fundinum og tóku virkan þátt í umræðum og stefnumótun. Samhliða var kynnt veggspjald með niðurstöðunum og nú hefur það verið þýtt yfir á íslensku og verður dreift á næstunni.
Markmiðunum á veggspjaldinu eru raðað upp eftir hversu mörg atkvæði þau fengu. Til dæmis fékk markmið númer eitt, einkalíf og upplýsingaöryggi, flest atkvæði í kosningunni. Númer tvö fékk næst flest og svo koll af kolli.
Nú þegar ungmennin hafa sagt sína skoðun um hver þau telja vera forgangsverkefnin til að gera netið að frábærum vettvangi er það okkar von að veggspjaldið gagnist öllum sem koma að uppeldi barna og þeim sem hafa vald til að hafa áhrif á hvernig vettvangur internetið verður í framtíðinni.
Fyrir hönd SAFT og ungmennaráðs SAFT
Sigurður Sigurðsson
Verkefnastjóri
Heimili og Skóli