EINELTI – ÁBENDINGAR TIL FORELDRA GRUNNSKÓLABARNA Í REYKJAVÍK

Stelpa í greinEinelti er þegar einstaklingur verður aftur og aftur fyrir neikvæðu og óþægilegu áreiti eins eða fleiri og viðkomandi á erfitt með að verja sig. Um getur verið að ræða beint einelti með höggum, spörkum, blótsyrðum, niðurlægðandi og háðslegum athugasemdum eða hótunum. Það er líka einelti ef stríðni er endurtekin og sá sem er strítt hefur sýnt að sér mislíki. Óbeint einelti er ef einhver er útilokaður frá félagahópnum, verður fyrir illu umtali eða aðrir koma í veg fyrir að viðkomandi eignist vini (Dan Olweus (2003). Einelti meðal barna og unglinga. Ráðleggingar til foreldra).

Ef grunur vaknar um að barn verði fyrir einelti eða sé gerandi í einelti er nauðsynlegt að foreldrar gefi sér góðan tíma og ræði við börn sín. Með því að hlusta á barnið og sýna samkennd og stuðning er auðveldara að átta sig á hvernig í pottinn er búið. Einelti ber að taka alvarlega en það er mikilvægt að rugla því ekki við samskiptaerfiðleika. Flestir upplifa, einhvern tíma á ævinni, að eiga í útistöðum við samferðafólk. Börn ná yfirleitt að vinna úr slíkum ágreiningi – oft með aðstoð hinna fullorðnu.

Þegar einelti á sér stað verða foreldrar að byrja á því komast að því hvar eineltið fer fram. Hver er vettvangurinn? Íþróttir, tómstundir, heimilið, skóli eða annað. Það er fyrsta skrefið í að greina vandann til þess að hægt sé að leita lausna.

Ef ætlað einelti fer fram á skólatíma ættu foreldrar umsvifalaust hafa samband við umsjónarkennara barnsins. Foreldrar greina frá áhyggjum sínum og óska eftir samstarfi við lausn málsins. Kennari og foreldrar skoða málið í sameiningu í samræmi við eineltisáætlun og stefnu skólans. Ef þörf krefur eru aðrir fagaðilar kallaðir til. Á öllum stigum málsins skal vera fullt samráð og samvinna við foreldra.

Ef foreldrum finnst aðgerðir skólans ekki bera árangur eða finna ekki samstarfsvilja hjá skólanum geta þeir leitað til þjónustumiðstöðva í hverfum borgarinnar. Í þjónustumiðstöðvum er teymi sérfræðinga sem getur aðstoðað í erfiðum málum. Sérfræðingar þjónustumiðstöðvarinnar veita margháttaða ráðgjöf og þjónustu við leik- og grunnskóla. Málefnum einstakra nemenda er hægt að vísa til sérfræðiþjónustunnar.

SKILDU EFTIR SKILABOÐ

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.