Aðalfundur foreldrafélags Rimaskóla og bekkjarfulltrúar
Heil og sæl
Það er komið að aðalfundi foreldrafélagsins sem haldinn verður 28. október 2021 kl. 18:00-20:00. Í boði verður súpa og fyrirlestur sem og frábær aðalfundur foreldrafélagins.
Gamla stjórnin er að hætta en þau eiga mörg hver ekki lengur börn við skólann en fara frá með sorg í hjarta því það hefur verið gaman að vera þáttakandi að samfélaginu hér við Rimaskóla. Við leitum því eftir góðu fólki til að halda áfram að efla starfið og styrkja skólann og börnin okkar. Ef þið eruð til í að bjóða ykkur fram þá megið þið gjarnan senda á mig eða Mörtu aðstoðarskólastjóra.
Svo er málið með bekkjarfulltrúa. Það hefur verið sérstakt undanfarna mánuði að halda uppi bekkjarfulltrúastarfi í COVID-19 ástandi. En nú er lag að koma hlutunum aftur í gott horf. Eins og þið vitið þá er ýmsar áskoranir sem foreldrar upplifa s.s. hópamyndun, óæskileg hegðun, útivistartími, rafrænn útivistartími, samfélagsmiðlar og margt margt fleira. Því þéttari sem við erum að tala saman og halda utan um börnin okkar því betur náum við að taka utan um áskoranir.
Hlutverk bekkjarfulltrúa er í raun að virkja hina foreldrana, koma með hugmyndir að einhverjum hittingum sem fólk hjálpast að með – verkstýra að þetta verði gert. Bekkjarfulltrúar eru einnig oft þeir sem hafa samband við fulltrúa foreldrafélags eða skólann ef hópurinn hefur áhyggjur af einhverju og vantar aðstoð við að takast á við margvísleg verkefni.
En hvernig veljum við bekkjarfulltrúa? Það sem hefur gengið best með er að velja ákveðinn fjölda, t.d. fyrstu þrjú til fjögur nöfn barna í árgangi og svo láta það rúlla á milli ára þannig að allir eru þátttakendur á einhverjum tímapunkti. Einhverjir sem ekki geta verið eitt árið taka þá kannski í staðinn árið á eftir þegar betur hentar enda erum við að takast oft á við mismunandi hluti á okkar lífskeiði. SAMFOK er með góðar upplýsingar um hlutverk bekkjarfulltrúa: https://samfok.is/bekkjarfulltruar
Ég legg því til að við förum í þetta fyrirkomulag og veljum fyrstu 3-4 nöfnin í hverjum hópi (geta verið færri ef það eru fámennir hópar). Við getum greitt um þetta atkvæði á aðalfundinum eða komið á framfæri öðrum hugmyndum sem hægt væri þá að kjósa um.
En endilega, hvet sem flesta að senda fulltrúa á aðalfundinn og setjum í gang frábært samstarf heimila og skóla!
Bestu kveðjur
Þóranna Rósa Ólafsdóttir
Skólastjóri Rimaskóla