Til foreldra nemenda í 1. – 10. bekk Rimaskóla
Nokkur atriði til upplýsingar í skólabyrjun: – Matráður skólans er í veikindaleyfi og ekki tókst að ráða í forföll fyrir skólabyrjun.
Skólinn kaupir nú mat af Eldhúsi sælkerans og er verð hverrar máltíðar óbreytt til nemenda. –
Í Rimaskóla eru 100 munaskápar sem nemendum á unglingastigi hefur staðið til boða að geta leigt gegn skilagjaldi. Nú er svo komið að 30 skápar eru skemmdir og ónothæfir eftir illa meðferð, spörk og lásaskemmdir. Ekki gátu allir nemendur í 8. bekk fengið ósk sína uppfyllta um að fá afnot af skáp og urðu því nokkuð ósáttir. Mér sýnist sem skólinn hefði mátt standa betur að úthlutun en nú var gert í upphafi skólaárs.
Okkur skólastjórnendum hafa borist nokkrar athugasemdir frá nemendum og foreldrum sem eru á rökum reistar. Skólastjórnendur eru nú að athuga næstu skref í málinu, viðgerð, fjölgun eða fækkun skápa. Umgengnin þarf þó að stórbatna til að úrbætur leiði til einhvers gagns –
Líkt og í upphafi síðasta skólaárs fer íþróttakennsla fram utan dyra og verður útikennslan viðhöfð fram í september. Íþróttakennarar munu senda tilkynningu þegar kemur að íþróttakennslu innan húss. – Frá og með þessu nýbyrjaða skólaári geta foreldrar fylgst með hæfnikorti barna sinna á Mentor.
Námsmat og vitnisburðarblöð verða á rafrænu formi nema í 4. , 7. og 10. bekk. Aðgangur foreldra á Mentor er alltaf að verða meiri og fjölbreyttari. –
Nokkur fjöldi nemenda nýtir sér vespur til að ferðast á í og úr skóla. Því miður eru flestir sem mæta á þessum tækjum að brjóta skólareglur á skólatíma með því að aka þeim glannalega á skólalóð og reiða vini sína og félaga. Hættan er mikil þegar þetta á sér stað í frímínútum og nemendur eru við leik á skólalóðinni.
Bið ég viðkomandi foreldra um ræða þau tilmæli við börnin sín að vera ekki á hjólum eða vespum á skólalóðinni í frímínútum. Ef ástandið lagast ekki verður að banna nemendum að koma á vespum í skólann. Boð og bönn eru ekki alltaf besta lausnin.
Með samstarfskveðju Helgi Árnason skólastjóri Helgi Árnason Rimaskóli