Sköpun-smíðar-útivist – fyrir börn fædd 2002 – 2005
Frístundamiðstöðin Gufunesbær býður þriðja sumarið í röð upp á þessi vinsælu námskeið sem að þessu sinni verða fjögur talsins, viku í senn. Lögð verður áhersla á sköpun og smíðar þar sem hægt verður að takast á við fjölbreytt viðfangsefni. Mikið er lagt upp úr því að krakkarnir fái að velja sér viðfangsefni eftir áhuga og getu. Einnig verður lögð áhersla á að vinna með efni beint úr skóginum, tálgun og útieldun. Þá verða möguleikar hönnunar úr endurunnu efni skoðaðir og áhersla lögð á lærdóm og upplifanir þátttakenda á námskeiðinu. Tímabil starfsins er frá 15. júní – 10. júlí og námskeiðin munu hafa bækistöð við Rimaskóla virka daga frá kl. 9-16.
Sumarsmiðjur – fyrir börn fædd 2002 – 2004 Eins og undanfarin sumur verður boðið upp á þessar vinsælu sumarsmiðjur. Um er að ræða mikið úrval af smiðjum og skemmtilegum viðburðum sem standa yfir í hálfan eða heilan dag og þarf að skrá sig í hverja smiðju og viðburð fyrir sig. Mikill fjölbreytileiki er í dagskránni og því ættu allir krakkar á þessum aldri að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Tímabil starfsins er frá 11. júní – 10. júlí eða rúmar fjórar vikur. Flestar smiðjurnar fara fram í Hlöðunni við Gufunesbæinn eða á útivistarsvæðinu þar í kring en þó er einnig farið annað þegar viðfangsefnin kalla á slíkt.
Athugið!
Takmarkaður fjöldi plássa er á námskeiðin og í smiðjurnar og því mikilvægt að skrá tímanlega enda vinsælar dagsetningar og smiðjur fljótar að fyllast.
Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Gufunesbæjar www.gufunes.is.
Frá 18. maí verður hægt að skrá á námskeiðin og smiðjurnar í gegnum Rafræna Reykjavík.
Njörður Njarðarson
Rimaskóli