Opið samráð um menntastefnu Reykjavíkur
Ágætu foreldrar
Seinni áfangi opins samráðs um menntastefnu Reykjavíkur fram til ársins 2030 er hafinn. Leitað verður eftir hugmyndum starfsfólks skóla- og frístundasviðs, barna, foreldra og allra borgarbúa að aðgerðum til að framfylgja meginniðurstöðum úr fyrri hluta samráðsins sem fram fór sl. vor.
Að loknu yfirgripsmiklu samráði í fyrri áfanga stefnumótunarinnar, sem náði til hátt í tíu þúsund manns, varð að niðurstöðu að leggja bæri megináherslu á fimm hæfniþætti í formlegri og óformlegri menntun barna og ungmenna í borginni; félagsfærni, sjálfseflingu, læsi, sköpun og heilbrigði.
Þessir hæfniþættir eru nú grunnurinn að stefnumótuninni.
Í seinni áfanga nú í nóvember snýst samráðið um að ná fram hugmyndum um aðgerðir til að vinna með þá fimm hæfniþætti sem voru valdir. Efnt verður til funda með stjórnendum og öðru starfsfólki leikskóla, grunnskóla, frístundamiðstöðva og skólahljómsveita. Jafnframt verður fundað með fulltrúum barna, foreldra og starfsfólki þjónustumiðstöðva.
Borgarbúum og öðrum sem áhuga hafa er einnig boðið til opins samráðs um stefnumótunina á Betri Reykjavík (www.betrireykjavik.is). Þar verður hægt að setja inn hugmyndir um aðgerðir allan nóvembermánuð.
Spurt er um hvernig koma megi fimm áhersluþáttunum stefnunnar í framkvæmd:
. Félagshæfni: Hvernig má vinna að því í skóla- og frístundastarfinu að öll börn sýni samfélagslega ábyrgð og virkni?
. Sjálfsefling: Hvernig má vinna að því í skóla- og frístundastarfinu að öll börn öðlist sterka sjálfsmynd og trú á eigin getu?
. Læsi: Hvernig má vinna að því í skóla- og frístundastarfinu að öll börn öðlist skilning geti lesið samfélag og umhverfi?
. Sköpun: Hvernig má vinna að því í skóla- og frístundastarfi að öll börn beiti skapandi hugsun?
. Heilbrigði: Hvernig má vinna að því í skóla- og frístundastarfi að öll börn tileinki sér heilbrigðan lífsstíl og líði vel?
Þetta er í fyrsta sinn að efnt er til svo víðtæks samráðs um stefnumótun á vegum Reykjavíkurborgar og eru foreldrar hvattir til að leggja fram hugmyndir sínar að því hvernig hrinda megi í framkvæmd þeim áhersluþáttum í nýrri menntastefnu sem komnir eru fram. Setja má fram hugmyndir að aðgerðum á www.menntastefna.betrireykjavik.is
Kær kveðja,
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.