Kveðja frá starfsfólki 10-12 í Sigyn

Góðan dag Við starfsfólk Sigynjar viljum þakka ykkur kærlega fyrir veturinn sem senn er á enda. Starfið okkar í vetur hefur gengið mjög vel og höfum við verið að prófa okkur áfram með nýja hluti, eins og smiðjur og klúbba og munum við reyna að halda áfram með það góða starf næsta vetur. Við höfum tekið við ýmsum ábendingum og tillögum frá foreldrum í vetur og reynum alltaf að gera okkar besta til að koma til móts við þarfir ykkar og barnanna í starfinu.

Við munum að sjálfsögðu halda áfram að bæta starfið okkar næsta vetur og höldum áfram að taka við ábendingum og tillögum frá foreldrum, það hjálpar okkur að sjá starfið með annarra augum og eflir okkur sem starfsstað. Á síðustu opnun okkar þann 27.maí voru haldnir Míní-Grafarvogsleikar í Gufunesbæ fyrir alla í 5.-7.bekk í Grafarvogi og kepptust félagsmiðstöðvarnar sínar á milli í hinum ýmsu þrautum, til dæmis stígvélakasti, klifri, kassabílarallý og fleiru. Einnig grilluðum við pulsur fyrir alla. Skemmst er frá því að segja að lang mest mæting var úr Sigyn og krakkarnir áttu ekki erfitt með að rúlla þessari keppni upp og eru því Sigyn Míní-Grafarvogsleika meistarar 2016!

Innilega til hamingju með flottu krakkana okkar. Það verða starfsmannabreytingar í haust en Helgi Þór mun hætta eftir fimm ára starf í Sigyn sem frístundaleiðbeinandi. Hann mun ljúka námi í viðskiptafræði í haust og mun því fara að starfa á þeim vettvangi. Við þökkum Helga Þór kærlega fyrir vel unnin störf síðastliðin ár og óskum honum alls hins besta. Einnig mun Tinna, aðstoðar forstöðukona, fara í fæðingarorlof en hún kemur aftur í apríl 2017.

Við minnum svo á að skráningar í smiðjur í sumar eru í fullum gangi á http://www.sumar.fristund.is.

Kær kveðja, starfsfólk Sigynjar

Njörður, Tinna, Helgi, Hera & Helga

sigyn@reykjavik.is S.695-5186 / 695-5183

UM HÖFUNDINN

SKILDU EFTIR SKILABOÐ

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.