Bréf frá Heimili og skóla
Gæði foreldrastarfs er ekki endilega mælt í fjölda viðburða heldur hversu vel foreldrum tekst
að halda utan um hópinn og vera samstíga í að styðja við börnin og setja heilbrigð mörk.
Þegar kemur að fundarhöldum er um að gera að upphugsa nýjar leiðir líkt og gert er í
atvinnulífinu um þessar mundir. Halda má rafræna fundi í gegnum ýmiss konar búnað sem
hentar best hverju sinni og til dæmis mætti leggja Foreldrasáttmála og Læsissáttmála Heimilis
og skóla fyrir rafrænt. Sáttmálarnir skapa góðan ramma í kringum umræður og hægt er að
hafa óformlega undirritun sem einn tekur að sér að punkta niður eða í gegnum Google forms.
Þegar takmörkunum léttir má einnig athuga annað hentugt húsnæði fyrir fundi ef skólinn er
enn lokaður foreldrum, t.d. sali í hverfinu, safnaðarheimili, bæjarskrifstofu o.fl. þar sem rúmt
er um þátttakendur. Í foreldrahópnum er mikill mannauður og mögulega einhverjir með
tengsl sem nýst geta í þessu samhengi.
Í Handbók foreldrarölts (https://reykjavik.is/sites/default/files/handbok_foreldrarolts.pdf)
segir m.a.: „Foreldrarölt myndar tengsl og stuðlar að auknu samtali milli foreldra í hverfinu.
Með því að taka þátt í foreldrarölti kynnist þú öðrum foreldrum og kynnist hverfinu þínu á
annan hátt. Einnig hefur þú góð áhrif á hverfisbraginn og það félagslega umhverfi sem börn
hverfisins búa í. Nærvera fullorðinna þar sem unglingar hafa safnast saman hefur róandi og
fyrirbyggjandi áhrif.
Slík nærvera gefur unglingunum líka tækifæri til að leita aðstoðarfullorðinna ef á þarf að halda.” Foreldraröltið hentar ágætlega þegar samkomutakmarkanir eru þar sem það er undir beru lofti og einfaldara að halda fjarlægðamörk. Hins vegar verður
vissulega að taka mið af ástandinu hverju sinni þegar fólki er hóað saman og þegar neyðarstig
er við lýði er eðli málsins samkvæmt ekki skynsamlegt að stefna fólki saman.
Frekara efni er að finna hér í nýju tímariti Heimilis og skóla:
https://issuu.com/heimiliogskoli.is/docs/hs_timarit_2020