Ályktun send á mennta- og menningarmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Skólastjórafélag Íslands og fjölmiðla

Efni: Öryggi í skólum og reglur um fræðslu fyrir börn og ungt fólk


Stjórn og starfsfólk Heimilis og skóla lýsa yfir áhyggjum af aðgengi og öryggismálum skóla og eru tvö nýleg atvik tilefni þessa erindis. Við skorum á mennta- og menningarmálaráðuneyti og sveitarfélög landsins að taka þessi mál til gagngerrar endurskoðunar og setja viðmið þar að lútandi.

Í byrjun september 2019 kom upp alvarlegt atvik í Austurbæjarskóla þar sem átti sér stað brot gegn barni á skólatíma. Einnig hefur borið á því undanfarið að losað hefur verið um skrúfur og dekk á hjólum skólabarna en í upphafi mánaðar slasaðist drengur illa þegar hann tvíhandleggsbrotnaði eftir slíkan hrekk. Þá eru þjófnaðir í skólum ekki óalgengir þar sem fatnaði og öðrum verðmætum er stolið frá börnum. Sem betur fer eru atburðir eins og sá fyrsti sem hér er lýst ekki algengir en þegar svona alvarlegur glæpur á sér stað í grunnskóla hlýtur það að vera tilefni til að staldra við og fara yfir öryggisferla, viðbragðsáætlanir og eftirlit með nemendum. Við viljum að skólinn sé öruggur staður fyrir börn þar sem þau upplifa sig örugg og líður vel en geta jafnframt leikið sér frjáls við tryggar aðstæður.

Við mælumst því til þess að öryggismál og aðgangsstýring verði endurskoðuð frá grunni í skólum landsins og skýrt sé hverjir starfa við skólann, t.d. með því að merkja starfsmenn og kenna börnum að leita aðeins til merktra starfsmanna.
Af gefnu tilefni gerum við einnig athugasemd við málefni sem nær þvert á skólastig og varðar reglur um fræðslu fyrir börn og unglinga. Nýlega hefur borið á því að óheppileg fræðsla hafi ratað inn í framhaldsskóla. Í viðtali við Stundina 4.okt. 2019 lýsir Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar, áhyggjum af því að skólar hleypi mönnum inn með fræðslu- og forvarnarstarf sem ekki hafa faglega þekkingu til að sinna slíku starfi og segir að um öryggisgloppu sé að ræða. Nemendur séu jafnvel settir í hættu. Rafn Magnús Jónsson, sérfræðingur hjá Embætti landlæknis, segir í sömu gre

in að þetta sé ekki æskilegasta leiðin til að fara ef markmiðið er að hafa áhrif á hegðun. Þetta gangi gegn þeim leiðbeiningum sem Landlæknisembættið hafi gefið út um forvarnir og sé andstætt allri þekkingu á forvörnum (sjá landlaeknir.is: Hvað virkar í tóbaks-, áfengis- og vímuforvörnum í skólum).

Ekki eru til nein lög eða reglur um það hverjum er hleypt inn í skólana með forvarnar- eða fræðslustarf eða hvernig slíku starfi skuli háttað af hálfu gestkomandi aðila. Engin viðmið eru til af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytis um hvernig haga skuli utanaðkomandi fræðslu inni í skólum. Einstök sveitarfélög hafa sum hver sett sér viðmið um slíkt en almennt er það á ábyrgð skólastjórnenda að ákveða hvaða kynningar skuli heimilaðar.

Það fyrirkomulag virðist þó ekki duga til að vernda nemendur fyrir óæskilegum áhrifum af óviðeigandi fræðslu og óskum við því eftir að mennta- og menningarmálaráðuneyti útbúi viðmið um fræðslu í skólum og eftir því sem við á í samstarfi við hlutaðeigandi, s.s. skólastjórnendur og sveitarfélög.

Virðingarfyllst f.h. Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra,
Hrefna Sigurjónsdóttir
framkvæmdastjóri Heimilis og skóla.

SKILDU EFTIR SKILABOÐ

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.